19.11.2006 | 19:05
How do you like Iceland?
Á nýju ári þurfa Hafnfirðingar að gera upp hug sinn um það hvort þeir vilji að leyfð verði stækkun álbræðslunnar í Straumsvík eins og Alcan, eigandi fyrirtækisins, vinnur nú að.
Búið er að selja Alcan lóð undir stækkaða starfsemi og kynna deiliskipulag sem miðað er við stækkun. Önnur yfirvöld eru búin að gefa grænt ljós m.a. á umhverfismat og starfsleyfi. Alcan er nú að semja við birgja um aðföng fyrir stækkaða verksmiðju. Geta Hafnfirðingar í raun og veru komið í veg fyrir að álbræðslan stækki?
Mikill áhugi er greinilega um málið í Hafnarfirði. Sitt sýnist hverju. Sjálf er ég alfarið á móti stækkun álvers. Enough is enough....
Skil ekki alveg pælinguna, hvað er málið?
- Þrátt fyrir að vindáttir séu flesta daga hagstæðar hvað varðar mengun við álverið, þá eru vindáttir óhagstæðar í nokkra tugi daga á ári og þá feykist mengunin, þ.ám. 20 tonn af brennisteini á dag, yfir íbúðarbyggð bæði í Hafnarfirði og á Álftanesi.
- Íbúðarbyggð er komin alveg að leyfilegum mörkum, þynningarsvæðið má ekki stækka frekar en orðið er.
- Heimiluð aukning á brennisteinsdíoxíði úr 3500 upp í 6900 tonn á ári. Hvað þýðir það?
- Sjónmengun er ekki hægt að mæla í prósentum, en mikil er hún og enn meiri verður hún ef af stækkun verður.
- Viljum við hafa stóriðju alveg ofan í íbúðarbyggð?
- Hvernig hefur Hafnarfjarðarbær hugsað sér að bregðast við hugsanlegu fjölmenningarsamfélagi sem myndast mun í kringum álverið og þau 350 nýju störf sem til verða við stækkunina?
- Ég vil að ég, sem íbúi í þessu bæjarfélagi fái eitthvað um það sagt, hvort að af stækkun álversins verður eður ei. Slíkt tilboð hefur ekki verið uppi á borði og í raun engar lýðræðislegar rökræður um málið fyrr en nú, þegar allir rjúka upp til handa og fóta.
- Hafnarfjörður sem ferðamannabær: Viljum við að rauðu og hvítu súrálsturnarnir verði nokkurskonar holdgervingar eða monument fyrir bæinn okkar?
- Er álbræðsla orðin að þjóðaríþrótt Íslendinga? Frá 1990 hefur árleg bræðsla aukist úr 88.000 tonnum í yfir 1 milljón tonn þegar fyrirhuguðum framkvæmdum er lokið. Litla náttúru paradísin Ísland verður þá orðin ein af stórtækustu álframleiðendum Evrópu
Ungir jafnaðarmenn héldu í dag fund í Hafnarfjarðarleikhúsinu um málið. Ég komst ekki vegna veðurs, því miður. Hefði gjarnan viljað vera og heyra í því fólki sem þar var á mælendaskrá.
Ég ætla svo sannarlega að mæta á fundinn hjá Sól í Straumi sem verður í Gúttó 21.nóv. Mæli með síðunni www.solistraumi.org
Skora á alla Hafnfirðinga til að taka afstöðu um málið!
Sól í Straumi, hópur áhugafólks um stækkunarmálið mun á fundi sínum 21. nóvember fara yfir skipulagsmálið stækkun í Straumsvík.
Aðalfyrirlesari fundarins verður Þór Tómasson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar sem gaf út starfsleyfi fyrir stækkaða verksmiðju sem gildir til ársins 2020.
Þarna fá bæjarbúar einstakt tækifæri til þess að spyrja óháðan sérfræðing útí umhverfisþátt málsins
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)